1.grein
Við undirritaðir fulltrúar Hjálparsveitar skáta Akureyri (HSSA), Flugbjörgunarsveitarinnar Akureyri (FBSA) og Sjóbjörgunarsveitar SVFÍ Súlur (SVF) samþykkjum að sameina sveitirnar í eina björgunar- og hjálparsveit, sem hlotið hefur nafnið Súlur, björgunarsveitin á Akureyri.
2.grein
Markmið með sameiningu sveitanna er að stofna eina öfluga björgunar- og hjálparsveit á Akureyri sem verður betur í stakk búin en eldri sveitirnar til að takast á við þau verkefni, sem til kunna að falla. Markmið hinnar nýju sveitar er að vinna að alhliða björgunar- og hjálparstörfum, að standa að þjálfun félagsmanna til þeirra starfa, að stuðla að auknum slysavörnum og afla þess búnaðar sem nauðsynlegur er til starfsins.
Hin nýja sveit starfar í tengslum við skátafélögin á Akureyri og kvennadeild SVFÍ á Akureyri.
3.grein
Samið verður við hönnuð um að fullvinna merki fyrir hina nýju sveit. Nýtt merki verður kynnt á stofnfundi.
4.grein
Framkvæmd sameiningar verður með þeim hætti, að haldnir verða auka aðalfundir hjá HSSA, FBSA og SVF þar sem borin verður upp tillaga um sameiningu, ásamt lögum hinnar nýju sveitar. Verði hvort tveggja samþykkt með meiri hluta atkvæða í öllum sveitum tekur hin nýja sveit við réttindum og skyldum HSSA, FBSA og SVF. Aðalfundum sveitanna verður síðan frestað um ótiltekinn tíma. Hafni sveitirnar samningi þessum eða lögum, starfa sveitirnar áfram í óbreyttri mynd.
Tillaga að starfsstjórn fyrir hina nýju sveit verður lögð fram á auka aðalfundum sveitanna og skulu HSSA og FBSA tilnefna hvor um sig 3 fulltrúa, og einn til vara, en SVF einn fulltrúa. Verði tillagan samþykkt í öllum sveitum tekur ný stjórn við og mun hún starfa sem starfsstjórn frá 10. september 1999 til 30. október 1999. Í starfsstjórn kemur formaður, ritari og meðstjórnandi frá HSSA, varaformaður, gjaldkeri og meðstjórnandi frá FBSA og meðstjórnandi frá SVF. Sömu ákvæði skulu gilda um kjör fyrstu stjórnar hinnar nýju sveitar. Samkomulag skal vera milli sveitanna um val á mönnum í starfsstjórn. Hin nýja starfsstjórn mun taka við rekstri, reikningum og umsjón eigna FBSA, HSSA og SVF fram að stofndegi. Þann 30. október 1999 er stefnt að formlegri stofnun hinnar nýju sveitar og stjórn hennar kosin á stofnfundi.
Til og með aðalfundi árið 2002 tilnefna FBSA og HSSA hvor um sig 3 fulltrúa í stjórn og einn til vara, en SVF 1 fulltrúa. Leitast skal við að halda jafnræði við skiptingu embætta á milli FBSA og HSSA.
Stefnt er að því að starfsemi hinnar nýju sveitar verði öll undir einu þaki eins fljótt og kostur er, samkvæmt meðfylgjandi sáttmála um húsnæðismál, dagsettan 9. september 1999 (fylgiskjal nr.1) Stjórn hinnar nýju sveitar verði falið að finna framtíðarlausn á húsnæðismálum og bera hana undir sveitarfund hinnar nýju sveitar.
5.grein
Samningur þessi gildir til framtíðar, en innan þriggja ára frá dagsetningu hans er hægt að segja honum upp ef ágreiningur myndast milli FBSA, HSSA og SVF. Honum verður aðeins rift ef aðalfundur hinnar nýju sveitar samþykkir svo, en til þess þarf samþykki 2/3 atkvæðisbærra fundarmanna.
Ef samningsslit verða skal skipta eignum hinnar nýju sveitar í samræmi við eignaskrár og efnahagsreikninga sem fylgja samningi þessum og hafa að geyma upplýsingar um hvaða eignir hver sveit lagði til við sameininguna. Ef frekari eignamyndun eða rýrnun hefur átt sér stað skal skipta þeim eignum eða skuldum þannig að HSSA og FBSA fá hvor um sig 47,5% og SVF 5%. Að öðrum kosti teljast sveitirnar sameinaðar í hina nýju sveit.
6.grein
Allir núverandi félagar HSSA, FBSA og SVF verða félagar í hinni nýju sveit. Atkvæðisbærir eru virkir félagar sveitanna samkvæmt meðfylgjandi félagatali. (fylgiskjal nr. 2) Einnig allir aðrir félagar HSSA, FBSA og SVF mánuði eftir að hafa staðfest skriflega aðild sín að hinni nýju sveit.
Samningur þessi er gerður í 3 samhljóða eintökum og heldur hver sínu eintaki.
Akureyri 9. september 1999,
Fyrir hönd Flugbjörgunarsveitarinnar Akureyri.
Leonard Birgisson
Fyrir hönd Hjálparsveitar skáta Akureyri.
Ingimar Eydal
Fyrir hönd Sjóbjörgunarsveitar SVFÍ, Súlur Akureyri.
Jörundur Torfason
Fylgiskjöl með samningi þessum:
Ársreikningar 1998
Nákvæm skrá yfir eignir 1. 9. 1999.
Veðbókarvottorð fasteigna og skrá um veðbönd farartækja 1. 9.1999.
Fylgiskjal nr.1, sáttmáli um húsnæðismál
Fylgiskjal nr.2, félagatal FBSA, HSSA og SVF.
Yfirlit yfir eignir og skuldir FBSA, HSSA og SVF.
Bráðabirgðauppgjör sveitanna fyrir tímabilið 01.01. 1999 – 09.09. 1999.
Fjárhagsáætlun nýrrar sveitar.